top of page

Velkomin/n/ð á síðuna mína.

Ég heiti Sema Erla Serdaroglu.

Ég starfa sem við kennslu og rannsóknir í tómstunda- og félagsmálafræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Sérsvið mitt eru forvarnir og inngrip, fjölmenning og inngilding, jaðarsetning og valdefling, ungt fólk, ofbeldi og öfgahyggja. Í rannsóknum mínum einblíni ég á ofbeldisfulla öfgahyggju, kynþátta- og menningarfordóma, einelti og ungt fólk.

  • Facebook
  • Twitter
  • Instagram

UM MIG

Ég  er með BA próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, Viðbótardiplómu í samskiptum og forvörnum (með áherslu á eineltisforvarnir), meistarapróf í evrópufræðum og evrópurétti frá Edinborgarháskóla og meistarapróf í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands.

Áður en ég hóf störf við Háskóla Íslands starfaði ég um árabil á vettvangi skóla- og frístundastarfs og síðar íþrótta- og æskulýðsmála þar sem ég sinnti meðal annars fræðslu og forvarnarmálum með áherslu á hagsmuni, öryggi og farsæld barna og ungmenna í skipulögðu frítímastarfi, meðal annars fyrir fólk sem starfar með börnum og ungmennum í frítímanum. Þar að auki hef ég unnið um árabil við inngrip í samskiptavanda, einelti, ofbeldi og aðra óæskilega hegðun á vettvangi skóla- og skipulagðs frítímastarfs.

Á meðal verkefna sem ég hef tekið þátt í að undanförnu er mótun stefnu stjórnvalda um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna til ársins 2030, staða ungmennafulltrúa Íslands í norrænu barna- og ungmennanefndinni, þróun á sameiginlegri viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf á Íslandi, þróun og innleiðing á siðareglum, þróun á netnámskeiði í barnavernd fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða, þróun á herferð gegn neteinelti á meðal barna og ungmenna, þróun á sértækum tómstundaúrræðum fyrir jaðarsett ungmenni og þróun á verkfærakistu fyrir inngildandi starf með börnum og ungmennum. Þar að auki tek ég þátt í faghópum um málefni barna og ungmenna, jafnt innan lands sem og utan og veiti ráðgjöf og stuðning.

Ég hef lengi verið virk í félagsstarfi og setið í stjórn fjölda félagasamtaka, jafnt innan lands sem og utan og ég hef einnig stofnað nokkur félagasamtök í gegnum tíðina. Ég hef tekið virkan þátt í stjórnmálastarfi og um árabil verið virk í mannréttinda- og réttlætisbaráttu. Ég hef á síðustu árum verið leiðandi í baráttunni gegn vaxandi fordómum, útlendingaandúð og hatursorðræðu og ég er stofnandi hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi og hef verið formaður samtakanna frá árinu 2017. Á meðal þess sem ég geri á þeim vettvangi er að berjast fyrir umbótum í málflokknum, vekja athygli á óréttlæti og mismunun, að kalla eftir virðingu fyrir mannréttindum flóttafólks og réttlátri og mannúðlegri móttöku og framkomu við fólk með flóttabakgrunn.

Ég hef unnið til fjölda verðlauna, viðurkenninga og tilnefninga fyrir baráttu mína. Ég var meðal annars valinn Kópavogsbúi ársins 2016, ég hlaut félagshyggjuverðlaun Ungra jafnaðarmanna árið 2017 og við í Solaris hjálparsamtökunum hlutum mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar árið 2020.

Nám mitt, starfsreynsla, félagsstörf, mannréttindabarátta og persónuleg upplifun og reynsla af fordómum, mismunun, hatursorðræðu og ofbeldisfullri öfgahyggju rennur saman í allri minni vinnu sem hefur það að markmiði að stuðla að farsæld, öryggi og inngildingu allra. Hvort sem það er í háskólanum, á námskeiðum og fræðslu fyrir vettvang og aðra áhugasama eða ráðgjöf og aðstoð við inngrip í mál legg ég mikla áherslu á nýjustu rannsóknir, kenningar og gagnreyndar aðferðir í bland við persónulega reynslu og áralanga reynslu af vettvangi.

Hafðu endilega samband ef þú telur að það sé eitthvað sem ég get gert fyrir þig og þína!

 

Bestu,
 

Sema Erla x

bottom of page